Hvað er html?

HyperText Markup Language (html) er það mál sem notað er til að skrifa það sem birtast á í vefnum (World Wide Web). Html er byggt á Standard Generalized Markup Language (sgml).

Skipanir

Í html eru allar skipanir hafðar innan < >. Html-málið er ekki stafnæmt þannig að skrifa má skipanir hvort heldur sem er með HÁSTÖFUM eða lágstöfum.
Smekklegra er þó að temja sér annað hvort og halda sig við það.
Flestar skipanir eru afmarkandi það er þær gildir frá einum stað í texta til annars. Dæmi um þetta er breiðletrun: <b> og </b>.
Bil umfram eitt milli orða í texta eru hundsuð og eins er um línuskipti. Undantekning frá þessu er áður uppsettur texti <pre> sjá hér að neðan.

Uppbygging html-skjala
Sérhvert html-skjal ætti að vera afmarkað með <html> efst og </html> neðst.
Html-skjal skiptist í tvo hluta, haus <head> og meginhluta <body>. Efst í skjalinu, eða neðan við <html> kemur hausinn, sem afmarkaður er með <head> og </head>. Innan hans er hægt að hafa ýmislegt s.s. athugasemdir og annað sem höfundur síðunnar kýs. Athugasemdir sem eru hafðar innan <!-- og --> birtast ekki á skjánum. Eitt ætti þó alltaf að vera þar en það er titill en hann er afmarkaður með <title> og </title>. Það sem sett er í hausinn er ekki hluti af sjálfri síðunni og birtist þar af leiðandi ekki nema titill sem er nafn síðunnar og birtist annað hvort efst á rammaröndinni eða allra efst á síðunni. Þar næst kemur svo meginhlutinn og er hann afmarkaður með <body> og </body>. Þar er venja að byrja á fyrirsögn með stærra letri eða jafnvel mynd.

Síða gæti litið svona út:
<html>

<head>
<title>Heimasíða Loka Laufeyjarsonar</title>
<!-- Þetta er heimasíða Loka – síðast breytt 23.1.95 -->
</head>

<body>

<h2>Loki Laufeyjarson</h2>

<p>
Loki átti til jötna að telja. Faðir hans var <b>Fárbauti</b> jötunn, sá sem stjórnaði hinum hættulega blossa-eldingum. Hann átti aðra óttalega syni, meðal þeirra Býleist og Helblinda. Móðir Loka hét <i>Laufey</i> eða Nál, og var haft fyrir satt að hún hefði alið Loka eftir að elding Fárbauta laust hana.
</p>

</body>
</html> Þessi síða myndi birtast svona.


Efnisyfirlit

Næsti kafli