Grein þessi birtist í Tölvumálum – tímariti SKÝ í október 1994

Inngangur

Í þessari grein verður fjallað um notkun tölvusamskipta í starfsemi Fræðsluskrifstofu Norðurlandsumdæmis eystra. Fyrst verður greint frá því hvernig starfsfólk skrifstofunnar notar tölvusamskipti til þess að afla upplýsinga. Síðan um það hvernig tölvusamskipti hafa verið notuð til upplýsingagjafar. Viðamesti kaflinn fjallar síðan um það hvernig tölvusamskipti hafa verið notuð við endurmenntun kennara í umdæminu.

Samskiptastöðin Imba – Íslenska menntanetið

Mig langar að biðja þig lesandi góður að hverfa með mér fáein ár aftur í tímann eða til 23. janúar 1990. Við erum stödd í Grunnskólanum á Raufarhöfn, það er iðulaus stórhríð allt kolófært og vart hundi út sigandi. En þessa dags verður ekki minnst vegna þessa veðurs, enda ekkert einsdæmi hér á landi á þessum árstíma, heldur er þetta dagurinn sem fyrsti skólinn tengdist samskiptastöðinni Imbu, formlega. Sá skóli var einmitt Grunnskólinn á Raufarhöfn. Undirritaður varð þeirrar ánægju aðnjótandi að vera staddur þar umræddan dag og varð reyndar veðurtepptur þar í þrjá sólarhringa. Að sitja fyrir framan tölvuna þessa nótt, geta verið í sambandi við fjölda manns út um allan heim meðan veðrið hamaðist úti fyrir var líkast því að losna úr einhverjum fjötrum. Þetta litla samfélag nyrst á Íslandi var í einni svipan komið í beinna og opnara samband við umheiminn en áður. Það hafði fengið beinan aðgang að öflugustu menntastofnunum heimsins og öllu því gífurlega magni upplýsinga og fróðleiks sem þar er. Möguleikar höfðu opnast á að vera í beinu sambandi við milljónir manna vítt og breitt um heiminn og fylgjast með og taka þátt í umræðum vísindamanna vítt og breitt um heiminn á nákvæmlega sama hátt og þeir sem búa í Tókíó, New York, London eða Sidney.
Í kjölfar Grunnskólans á Raufarhöfn tengdust Gagnfræðaskólinn í Ólafsfirði og Fræðsluskrifstofan á Norðurlandi eystra þá strax um nóttina. Allt frá því Fræðsluskrifstofan tengdist þessa umræddu nótt hefur notkun tölvusamskipta í starfseminni aukist jafnt og þétt. Fyrst var aðeins ein tölva tengd gegnum upphringimódem en frá því Menntanetið var stofnað 1992 hefur skrifstofan verið með beina tengingu þannig að hver starfsmaður hefur aðgang að netinu frá tölvu á sinni eigin skrifstofu.
Íslenska menntanetið er hluti af Internet, sem er alþjóðlegt tölvunet rekið nær eingöngu af háskólum og öðrum menntastofnunum vítt um heiminn. Með tengingu við Menntanetið fær því hver notandi aðgang að gífurlegum fjölda tölvuráðstefna auk gagna- og greinasafna um aðskiljanlegustu efni. Einnig gefur þetta notendum möguleika á að vera í persónulegu sambandi við þær milljónir manna sem tengjast netinu hvar sem er í heiminum.

Öflun upplýsinga

Allt frá upphafi hefur skrifstofan notað tölvusamskipti til að afla upplýsinga bæði úr skólum umdæmisins og einnig víðar að. Glöggt vitni um það ber eftirfarandi kafli úr Fréttabréfi Fræðsluskrifstofunnar 1989-1990, 2. tbl. sem kom út í mars 1990 eða aðeins tveim mánuðum eftir að Samskiptastöðin Imba tók til starfa. Yfirskrift þess kafla er Imba kemur víða við.
Eins og sjá má af þessu fréttabréfi bárust greinar í það víða að. Þrjár þeirra voru sendar í gegn um samskiptastöðina Imbu. Fréttabréfið var allt unnið á tölvur Fræðsluskrifstofunnar. Til gamans má geta þess að ein greinin barst 5 mínútum fyrir útprentun. Undirstrikar það hve tölvusamskipti geta stytt vegalengdir.Vorið 1991 stóð Fræðsluskrifstofan fyrir útgáfu kynningarrits um skóla umdæmisins. Til þæginda og einnig til að koma í veg fyrir tvíverknað voru skólar hvattir til að senda þessar upplýsingar með tölvupósti sem og hluti þeirra nýtti sér.
Þetta sama vor sá Fræðsluskrifstofan um útgáfu á sameiginlegu skólablaði fyrir umdæmið “Neistar úr norðri”. Hverjum skóla í umdæminu var úthlutað ákveðnu rými í blaðinu og bar skólinn alfarið ábyrgð á innslætti og prófarkalestri á sínu efni. Þó nokkrir skólar notfærðu sér að senda sitt efni til skrifstofunnar um netið.
Skömmu eftir að skrifstofan hóf að nota tölvusamskipti fóru nokkrir skólar í umdæminu að senda forfallaskýrslur sínar um netið og hafa haldið því áfram síðan.
Allt frá því Fræðsluskrifstofan tengdist netinu hefur starfsfólk notað ýmis gagna- og greinasöfn, sem finna má á netinu vítt og breitt um heiminn, til að efla sig í starfi og við undirbúning námskeiða og annarrar vinnu í skólum umdæmisins.

Miðlun upplýsinga

Skömmu eftir tengingu skrifstofunnar var byrjað að senda fundaboð og auglýsingar út á póstlista skólanna í umdæminu, jafnframt því sem landpósturinn var notaður. Var því haldið áfram þar til farið var að nota gopher til upplýsingagjafar 1992. Það fyrsta sem sett var undir gopher var myndbandaskrá skrifstofunnar. Stuttu áður hafði skrifstofan fengið myndbandaskrána frá Námsgagnastofnun á tölvutæku formi og hafði hún verið sett inn í gagnagrunn skrifstofunnar. Hún var færð yfir á Menntanetið og sett upp á þann hátt að auðvelt er að leita, bæði að ákveðnum titlum, og eins eftir efnisorðum. Þróun þessa gagnasafns heldur stöðugt áfram.
Skrá yfir starfsfólk skrifstofunnar, netföng þess og símatíma hefur verið sett undir gopher tvö síðastliðin skólaár. Sama gildir um upplýsingar um skólahald í umdæminu. Jafnframt því að senda fræðslufundabækling skrifstofunnar í alla skóla umdæmisins í pósti hefur hann einnig verið settur undir gopher tvö síðastliðin skólaár. Einnig hafa ýmsar upplýsingar varðandi tvö námskeið sem skrifstofan hefur staðið fyrir verið settar undir gopher. Íslenska menntanetið var notað meðal annarra leiða á þessum námskeiðum, en nánar verður vikið að þessum námskeiðum hér á eftir.

Nefndastörf og samvinna

Starfsfólk skrifstofunnar hefur notað tölvusamskipti til að auðvelda sér vinnu í nefndum og hafa upplýsingar og skýrslur verið sendar landshorna á milli til yfirlestrar og breytinga og í sumum tilfellum hafa starfsmenn haldið áfram nefndarstörfum þótt þeir hafi verið í tímabundnu námsleyfi erlendis.
Á liðnum árum hefur samstarf verið talsvert milli Fræðsluskrifstofanna tveggja á Norðurlandi og nokkuð hefur verið um það að send hafi verið eyðublaðaform o.þ.h. á milli á tölvutæku formi.
Starfsfólk skrifstofunnar hefur haft frumkvæði að því að nota tölvusamskipti sem vettvang til umræðna og skoðanaskipta í faghópunum sem starfa á fræðsluskrifstofunum en ekki orðið nógu vel ágengt vegna þess hve fátt starfsfólk á hinum skrifstofunum er tengt.

Fræðslufundir – endurmenntun kennara

Eitt af hlutverkum fræðsluskrifstofanna er að standa fyrir fræðslufundum og stuttum námskeiðum fyrir kennara í umdæmunum. Síðastliðin fjögur ár hefur Fræðsluskrifstofa Norðurlandsumdæmis eystra boðið upp á milli 10 og 20 fundi á ári og hafa allt að 450 þátttakendur sótt þá hvert ár. Þessir fundir hafa ýmist verið haldnir í húsakynnum skrifstofunnar eða úti í skólum umdæmisins. Vegna víðáttu fræðsluumdæmisins hefur sú stefna ríkt að bjóða upp á sem flesta fundi á tveimur stöðum, þá gjarnan á Akureyri eða í næsta nágrenni og einnig á Húsavík eða þar um kring. Umdæmið spannar allt frá Ólafsfirði í vestri til Þórshafnar í austri en milli þessara tveggja staða eru rétt innan við 400 km ef farið er til Þórshafnar með ströndinni, en Öxarfjarðarheiði er yfirleitt lokuð meðan skólar starfa. Til enn betri glöggvunar má geta þess að það er álíka langt frá Akureyri til Þórshafnar og frá Akureyri til Borgarness. Vegna stærðar umdæmisins er stöðugt verið að leit leiða til að “stytta” þessar fjarlægðir. Með tilkomu Imbu og síðan Íslenska menntanetsins hófst lagning nýrrar og annars konar þjóðbrautar um landið vítt og breitt. Strax með tilkomu Imbu, var á Fræðsluskrifstofunni, farið að huga að hvernig nýta mætti þessa nýju möguleika í fræðslutilboði skrifstofunnar. Skólaárið 92-93 var ákveðið að gera tilraun með notkun tölvusamskipta í bland við hið hefðbundna fræðslufundaform. Hér á eftir verður stuttlega greint frá þeim þrem tilraunum sem gerðar hafa verið á Fræðsluskrifstofunni á síðustu tveim skólaárum. Fyrst og fremst verður fjallað um það hvernig tölvusamskiptin voru notuð í fræðslustarfinu og reynt að leggja mat á hvernig til tókst.

Umsar 92-93

Við undirbúning námskeiðs, sem halda átti á skólaárinu 92-93, um hlutverk umsjónarkennarans vaknaði fljótt sú hugmynd að nota tölvusamskipti í bland við hefðbundnari aðferðir. Rætt var við starfsmenn menntanetsins um samstarf og fékk þessi hugmynd góðar undirtektir. Var strax heitið stuðningi í því formi að starfsmenn netsins færu í alla þátttökuskólana og hjálpuðu kennurum að tengjast. Markmið þessa námskeiðs var að efla umsjónarkennarann í starfi og gera hann færari um að takast á við þau fjölþættu verkefni sem starfinu fylgja. Leiðirnar sem valdar voru að þessu markmiði, voru bein fræðsla og auk samvinnu og skoðanaskipta umsjónarkennara umdæmisins m.a. með tölvusamskipum.
Skipulag námskeiðsins var með þeim hætti að snemma í nóvember voru haldnir fræðslufundir á þrem stöðum í umdæminu, Grunnskólanum á Raufarhöfn, Borgarhólsskóla á Húsavík og Lundarskóla á Akureyri. Þátttakan var mjög góð því samtals sóttu 59 kennarar frá 14 skólum fundina. Sama dagskrá var á öllum þessum fundum en þar var einkum fjallað um samskipti kennara og nemenda, kennara og foreldra, nemenda innbyrðis og kennara innbyrðis. Eftir að þessum fundum lauk var umræðan flutt yfir á Ísmennt þar sem umræða um hlutverk umsjónarkennarans hélt áfram. Í upphafi kynntu þátttakendur sig með stuttu bréfi þar sem þeir skýrðu frá hvaða bekkjum þeir kenndu, hversu lengi þeir hefðu kennt og fleira í þeim dúr. Þetta þótti nauðsynlegt bæði til að þjálfa þátttakendur í tölvusamskiptunum og einnig vegna þess að sumir þessara kennara höfðu aldrei hist. Til að gera þetta eilítið persónulegra voru sendar myndir frá fundunum þrem í alla þátttökuskólana til að fólk gæti virt fyrir sér þá sem þeir voru að skiptast á skoðunum við. Eftir þessa kynningu upphófst hin eiginlega umræða á netinu. Umsjónarmenn vörpuðu fram spurningum tengdum viðfangsefninu til íhugunar og umfjöllunar. Einnig höfðu kennararnir í skólunum bein samskipti sín á milli. Þessar “umræður” héldu síðan áfram fram á vorið. Um miðjan apríl var sameiginlegur fundur í Hrafnagilsskóla þar sem allir þátttakendur hittust. Efni þess fundar var tvískipt. Fyrst fjallaði Hafdís Guðjónsdóttir, kennari í Lækjarskóla, Hafnarfirði um foreldrasamstarf, síðan var einskonar uppgjör eða mat á vetrarstarfinu.
Þegar á heildina er litið er óhætt að fullyrða að bærilega hafi til tekist. Líflegar umræður urðu á netinu um hlutverk umsjónarkennarans og einnig urðu umræður í skólum þátttakenda meðal kennara sem ekki tóku þátt í námskeiðinu. Eins þjálfuðust þátttakendur heilmikið í notkun tölvusamskipta. Verið var að prófa nýja samskiptaleið í fræðslustarfi skrifstofunnar, sem var að mörgu leyti frábrugðin þeim sem höfðu áður verið reyndar. Sumt hefði að sjálfsögðu mátt fara betur og er ýmist um að kenna skipulaginu eða óvana þátttakenda og umsjónarmanna af svona vinnubrögðum. Eitt af því sem fólk saknar í tölvusamskiptum er líkamsmálið. Það er tvennt ólíkt að ræða saman augliti til auglitis eða skiptast á skoðunum skriflega um tölvunet. Það að sjá ekki svipbrigði á þeim sem maður er að –ræða• við getur verið skrambi erfitt. Að varpa fram spurningu í umræðum eða að koma með hana skriflega er líka ólíkt. Einnig fyllist fólk oft óöryggiskennd ef það fær engin svör við því sem það hefur fram að færa, það fær ekki einu sinni að vita hvort boðin hafi komist alla leið. Þarna kom glögglega í ljós að sömu lögmál virðast gilda hvað varðar sambandið milli virkni þátttakenda og hópastærða í umræðuhópum á tölvuneti eins og í hefðbundnum umræðuhópum þar sem fólk er augliti til auglitis. Því stærri sem hópurinn er því fleiri óvirkir.

Umsar 93-94

Við skipulagningu fræðslufundatilboðs Fræðsluskrifstofunnar fyrir skólaárið 93-94 var ákveðið að halda áfram með námskeiðið um hlutverk umsjónarkennarans. Þá þótti og sjálfsagt að halda áfram tilraunum með notkun tölvusamskipta og byggja á þeirri reynslu sem fengist hafði árið á undan. Viðfangsefni vetrarins var skipt í þrennt, námsumhverfi, kennsla og uppeldi og samskipti Ákveðið var að auk beinnar fræðslu skyldu þátttakendur vinna í sameiningu sjálfsmatshefti fyrir hvert viðfangsefni, sem nýst gæti kennurum í starfi. Upphaf námskeiðsins var með sama sniði og áður þ.e. þrír samskonar fundir í jafn mörgum skólum. Þátttakan var svipuð og fyrra árið eða 56 kennarar frá 15 skólum. Þetta var að stærstum hluta sama fólkið og árið áður en nokkrir nýir bættust í hópinn. Á fundunum var áhersla lögð á að kynna vinnuferlið fyrir þátttakendum en skipulag tölvusamskiptanna og önnur vinna milli fundanna frá hausti til vors var í mun fastara formi en árið áður. Að fundunum loknum var þátttakendum skiptu í 7 svokallaða nethópa og var reynt að hafa einungis einn kennara úr hverjum skóla í hverjum nethóp. Þetta var gert til að auka virkni og ábyrgð hvers einstaklings. Þátttakendur unnu síðan til skiptis í nethópum og skólahópum sem myndaðir voru í hverjum skóla fyrir sig. Vinnuferlið var með þeim hætti að kennarar byrjuðu einir hver fyrir sig með athuganir í eigin stofu eða á eigin kennslu. Í umfjöllun um fyrsta þáttinn, námsumhverfið, veltu þeir fyrir sér hvaða þætti í námsumhverfinu ætti að meta og hvernig. Þar næst hittust skólahópar hvers skóla og unnu áfram og komust að sameiginlegri niðurstöðu. Þegar því var lokið tóku nethóparnir til starfa og hver kennari skilaði tillögum síns skólahóps út í sinn nethóp og var jafnframt talsmaður síns skólahóps þar. Þegar nethóparnir höfðu komist að sameiginlegri niðurstöðu kynntu þátttakendur þær fyrir skólahópunum sem tóku þær til nánari umfjöllunar. Þetta ferli var endurtekið nokkrum sinnum. Tilgangurinn með þessari endurtekningu var að nálgast samhljóða tillögur alls hópsins. Að endingu sendi hver nethópur sínar tillögur á póstlista sem samanstóð af öllum þátttakendum og þar fór fram lokaumræða. Umsjónarmenn söfnuðu síðan niðurstöðum saman og gengu frá þeim til útprentunar og sendu í þátttökuskólana. Allan þennan tíma voru umsjónarmenn í sambandi við þátttakendur bæði sem nethópa og eins einstaklingslega. Sendu þeir fræðsluefni til allra þátttakenda, vörpuðu fram spurningum og komu með ábendingar um lesefni. Einnig fór drjúgur tími í tæknilega aðstoð varðandi tölvusamskiptin. Ekki reyndist tími til að fjalla um samskiptaþáttinn á þennan hátt og því var ákveðið að gera honum skil á sameiginlega fundinum í lokin. Hann var haldinn á Kópaskeri og Elísabet Berta Bjarnadóttir var fengin til að fjalla um samskiptaþáttinn og nefndi hún umfjöllun sína kerfiskenningar og samskipti, stofnunin – starfsmaðurinn – barnið. Síðari hluti fundarins var síðan notaður til uppgjörs og mats á vetrarstarfinu.
Þetta fyrirkomulag reyndist að flestu leyti vel en þó reyndist erfitt að halda allar tímasetningar. Þótt nethóparnir væru ekki stórir voru þátttakendur mjög misjafnlega virkir og umræður í hópunum voru lengi af stað. Líklegt er að umræðurnar hefðu gengið betur og orðið markvissari ef einhver innan hópsins hefði verið gerður ábyrgur fyrir því að halda umræðunni vakandi í stað þess að umsjónarmenn væru að reyna það sjálfir. Þátttakendur voru afar misjafnlega á vegi staddir með tölvusamskiptin og hafði það óneitanlega sín áhrif.
Eftir hópinn liggja tvö matshefti, annars vegar um námsumhverfið og hins vegar um kennslu og uppeldishlutverk kennarans upp á 10 bls. hvort. Hefti þessi eru mjög ítarleg og er þar að finna flest það sem kennarar verða að athuga og meta varðandi þessa tvo þætti.
Umsjón með þessum námskeiðum höfðu Anna Lilja Sigurðardóttir og Jón Jónasson, bæði starfsmenn Fræðsluskrifstofunnar.

Átaksverkefni um blöndun

Leitað var til Hvammshlíðarskóla um samstarf að þróunarverkefni sem hefði það að yfirmarkmiði að bæta kennslu fatlaðra nemenda í umdæminu. Verkefnið var skipulagt til tveggja skólaára og hófst haustið 1992. Sett voru markmið í þremur liðum:að stuðla að aukinni og árangusríkari blöndun fatlaðra og ófatlaðra nemenda í almennum bekkjum
að stuðla að framþróun í starfsháttum skólanna þannig að betur gangi að mæta ólíkum þörfum í bekk
að auka tengslin milli sérskólans og almenna skólans.
Átaksverkefni um blöndun náði til 9 fatlaðra nemenda sem allir njóta kennslu í heimaskóla. Þátttökuskólarnir voru sjö, fimm skólar á Akureyri ásamt Dalvíkurskóla og Borgarhólsskóla á Húsavík. Lögð var áhersla á samvinnu, ráðgjöf og fræðslustarf. Auk fræðslufunda og ráðgjafarvinnu í skólunum var ákveðið að nota Ísmennt til samskipta. Myndaður var póstlisti á Ísmennt til að skapa þátttakendum vettvang til skoðanaskipta og að miðla hverjir öðrum af reynslu sinni. Þessi tilraun sem þarna var gerð sýndi að meira þarf til en einungis það að skapa vettvanginn. Það er fullur áhugi á að halda vakandi umræðunni um blöndun fatlaðra og ófatlaðra á menntanetinu en þar þarf að skipuleggja samskiptin og einhver þarf að leiða umræðuna og fylgja henni eftir.
Umsjón með framkvæmd verkefnisins, höfðu Anna Lilja Sigurðardóttir sérkennslufulltrúi, Már Magnússon forstöðumaður sálfræðideildar og Halldóra Haraldsdóttir skólastjóri Hvammshlíðarskóla.

Framtíðarsýn

Á þessari stundu ríkir talsverð óvissa um framtíð fræðsluskrifstofanna. En hvort sem þær verða lagðar niður eða rekstrarformi þeirra breytt þá þarf að sinna þeim verkefnum sem þar eru unnin í dag. Því er mikilvægt að sú þróun og nýbreytni í vinnubrögðum sem hér hefur verið lýst haldi áfram og nýtist hvar sem verkefnunum verður sinnt í framtíðinni.
Í öllu fræðslustarfi sem og öðru er nauðsynlegt að staldra við og meta það sem gert hefur verið og kanna viðhorf þeirra sem fræðslunnar njóta. Því var síðastliðið vor gerð könnun á viðhorfum kennara á Norðurlandi eystra til fræðslufundatilboðs skrifstofunnar og mati þeirra á hvernig til hafði tekist. Svör bárust frá 147 kennurum af rúmlega 400 sem eru í umdæminu. Í könnun þessari var meðal annars kannað viðhorf til notkunar tölvusamskipta í fræðslustarfi skrifstofunnar. Fullyrðingunni: Fræðsluskrifstofan á að leggja aukna áherslu á notkun tölvusamskipta í sínu fræðslufundatilboði kváðust tæplega 18% vera mjög sammála, 42% nokkuð sammála, 29% frekar ósammála og 6% mjög ósammála. Einnig var spurt: Hvaða áhrif hefur það á fræðslufundaþátttöku þína ef fræðslan og samskiptin byggjast að einhverju leyti á tölvusamskiptum? Svörin skiptust þannig að 19% töldu það hafa hvetjandi áhrif, 36% engin áhrif, 28% letjandi áhrif og loks 12% sögðu að það kæmi í veg fyrir þátttöku.

Það vekur athygli þegar svörin eru skoðuð með tilliti til stærðar skóla að ekki virðist vera marktækur munur þar á en freistandi hefði verið að álykta sem svo að kennarar í fámennu skólunum hefðu meiri áhuga á notkun tölvusamskipta. Hugsanleg skýring gæti verið sú að þeir kennarar sækist frekar eftir félagsskap við aðra kennara.
Stöðugt er verið að auka og bæta þær upplýsingar sem Fræðsluskrifstofan hefur undir gopher og nú á næstunni verður farið að vinna í því að setja fréttabréf skrifstofunnar og opinberar skýrslur ýmiskonar þangað.
Fyrir nokkru var byrjað að hanna gagnasafnskerfi fyrir menntamálaráðuneytið og fræðsluskrifstofurnar til að halda utan um allar upplýsingar um grunnskólahald í landinu. Einn starfsmaður skrifstofunnar á sæti í nefnd sem skipuð var til að gera kröfulýsingu og vera forritara til ráðuneytis. Þetta er, eins og gefur að skilja, gífurlega viðamikið og ekki síður þarft verkefni því öll upplýsingaöflun og upplýsingageymsla á vegum Menntamálaráðuneytis og fræðsluskrifstofa hefur verið bágborin. Ákveðið var að velja opna lausn og skrifa grunninn fyrir Unix-vél sem lægi miðlægt. Þetta þýðir að allar upplýsingar eru á einum stað en tryggt verður aðgengi allra að því sem þá varðar. Hver skóli mun hafa aðgang að upplýsingum er þá varðar, fræðsluskrifstofurnar munu hafa aðgang að upplýsingum um alla skóla í viðkomandi umdæmis og loks mun menntamálaráðuneytið hafa aðgang að öllum upplýsingum. Vegna þeirrar stefnu sem ríkt hefur á Fræðsluskrifstofu Norðurlandsumdæmis eystra og vegna þeirrar tölvuuppbyggingar sem þar hefur átt sér stað, er hún ein fræðsluskrifstofa í stakk búin að taka þetta kerfi í notkun fyrir allt sitt starfsfólk, nú þegar, eða áður en kerfið er tilbúið.

Lokaorð

Hér hefur í örstuttu máli verið gerð grein fyrir því hvernig Fræðsluskrifstofa Norðurlandsumdæmis eystra hefur notað tölvusamskipti í sínu starfi.
Hverfum nú aftur til baka til óveðursdaganna á Raufarhöfn þar sem starfsmaður Fræðsluskrifstofunnar varð veðurtepptur í þrjá sólarhringa. Þetta leiðir hugann að því hve við erum háð samgöngum bæði á landi og lofti og hve ótryggar þær eru hér á landi yfir vetrartímann. Því er afar brýnt að leita leiða í fræðslu- og ráðgjafarstarfi við íslenska skóla, sem gera okkur óháðari duttlungum íslenskrar veðráttu. Tölvusamskipti og hvers konar fjarmenntun er tvímælalaust ein leiðin til þess þó þau komi aldrei fyllilega í staðinn fyrir það að fólk hittist. Líklegt er að á næstu árum verði bylting á sviði fjarmenntunar. Miðað við nettengingu, þekkingu og reynslu sem við búum yfir hér á landi höfum við allar forsendur til að verða leiðandi á þessu sviði.
Eftirfarandi samlíking hefur oft verið tekin til að undirstrika þá gífurlegu byltingu sem orðið hafa í tölvuiðnaði og sagt að ef framfarir hefðu orðið álíka í bílaiðnaði ætti Rolles Royce að kosta 100 kr. og rúmast í eldspýtustokk. Ef til vill er þessi samlíking ekki eins spaugileg og fráleit og í fyrstu gæti virst því á þeirri nýju þjóðbraut sem tölvunetið er rúmast það farartæki sem þar er brúkað hæglega í eldspýtustokk.

Heimildir

Ársskýrsla Fræðsluskrifstofu Norðurlandsumdæmis eystra 1992-1993. 1994. [Fjölrit.] Fræðsluskrifstofa Norðurlandsumdæmis eystra.

Fræðslufundir 1992 – 1993. 1992. [Fjölrit.] Fræðsluskrifstofa Norðurlandsumdæmis eystra.

Fræðslufundir 1993 – 1994. 1993. [Fjölrit.] Fræðsluskrifstofa Norðurlandsumdæmis eystra.

Anna Lilja Sigurðardóttir. 1993. Integration Project in North-East Iceland 1992-94. [Erindi flutt á TESS ráðstefnu í Hrafnagilsskóla 9. sept. 1993. Fjölrit.]

Anna Lilja Sigurðardóttir & Már V. Magnússon. 1992. Átaksverkefni um blöndun fatlaðra í almenna skóla. Íslenska menntanetið, Gagnasöfn, Stofnanir og félög, Fræðsluskrifstofa Norðurlandsumdæmis eystra

Jón Jónasson. 1993. Computer Communication in In-Service Training. [Erindi flutt á TESS ráðstefnu í Hrafnagilsskóla 9. sept. 1993. Fjölrit.]

Jón Jónasson & Anna Lilja Sigurðardóttir. 1992. Umsar (Námskeið um hlutverk umsjónarkennarans). Íslenska menntanetið, Gagnasöfn, Stofnanir og félög, Fræðsluskrifstofa Norðurlandsumdæmis eystra

Lára Stefánsdóttir & Sigurjón Mýrdal. 1993. Íslenska menntanetið og farskóli Kennaraháskóla Íslands. Íslenska menntanetið, Gagnasöfn, Greinar.

Pétur Þorsteinsson. 1990. Samskiptastöðin Imba. Fréttabréf Fræðsluskrifstofu Norðurlandsumdæmis eystra. 2. tbl. skólaárið 1989-1990, mars, bls. 12-13.

Pétur Þorsteinsson. 1991. Hvað er að frétta af Imbu. Fréttabréf Fræðsluskrifstofu Norðurlandsumdæmis eystra. 1. tbl. skólaárið 1990-1991, nóvember, bls. 6-7.

Trausti Þorsteinsson. 1990. Imba kemur víða við. Fréttabréf Fræðsluskrifstofu Norðurlandsumdæmis eystra, 2. tbl. skólaárið 1989-1990, mars, bls 15.